Tómstundir í Suðurnesjabæ eru ekki aukaatriði
Við verðum að tryggja börnum í Suðurnesjabæ auknar tómstundir og íþróttastarf. Börn hefja iðkun tómstunda fyrst og fremst vegna áhuga og félagsskapar. Við verðum að gefa þeim tækifæri til að fá útrás fyrir orku, tjáningu og hæfileika. Við viljum auka tómstundir og íþróttastarf, dans, rafíþróttir og virkja körfuboltann svo eitthvað sé nefnt. Við viljum að það verði eitt tómstundagjald á barn og með því aukum við forvarnir hjá börnunum okkar.
Það er vond staða að bjóða iðkendum og foreldrum upp á að þurfa að fara á milli bæjarfélaga til að sækja tómstund er hentar hverju og einu barni. Aðstæður og staða foreldra eru mismunandi og því leggjum við til að komið verði á tómstundarútu til að koma til móts við þarfir barnanna er þurfa að fara á milli Garðs og Sandgerðis. Atvinna og tómstund eiga ekki að rekast á heldur eigum við að létta undir með foreldrum og forráðamönnum barna.
Við viljum skipuleggja tómstunda- og íþróttastarf á þann hátt að börnin kynnist sem flestum greinum, en þurfi ekki að velja eina grein þar sem stuðningur sveitarfélagsins er ekki nægur.
Börn eru líklegri til að finna sín áhugasvið og styrkleika ef þau vita hvort áhugi þeirra og styrkleiki liggi þar. Það er mikilvægt að við gerum hlutina á forsendum barnanna ekki duttlungum stjórnmálanna. Við verðum að hugsa fyrst og fremst um velferð barna, þroska og möguleika þeirra. Einnig hefur íþrótta- og tómstundastarf styrkt sjálfsmynd barna. Í tómstundum eiga börn að fá að rækta drauma sína.
Sigfríður Ólafsdóttir,
skipar 4. sæti á framboðslista Framsóknar í Suðurnesjabæ.